Unglingadeildin Vestri

Dagana 28. – 30. október fór unglingadeildin Vestri til Ísafjarðar í innilegu hjá unglingadeildinni Hafstjörnunni.

Lagt var af stað um miðjan dag á föstudeginum og var fenginn einn bíll frá Ísafirði til þess að taka á móti okkur. Vorum nefnilega 9 í heildina, 7 unglingar og 2 umsjónarmenn og því dugði bíll bjsv. Blakks ekki undir okkur öll og fór Smári því á sínum bíl áleiðis til Ísafjarðar en við hittum síðan bílinn sem kom á móti okkur uppi á Dynjandisheiði. Föstudagskvöldið fór svo bara í spjall og að koma sér fyrir í Guðmundarbúð, húsi björgunarfélags Ísafjarðar.

Laugardagurinn var tekinn snemma og var farið út um 9.30. Fyrir hádegi voru teknir tveir póstar (póstur er svona stöðvavinna) og eftir hádegi var einn póstur. Póstarnir þrír voru sig, þrautabraut og hópefli. Allt voru þetta skemmtilegir póstar og unglingarnir sem og umsjónarmenn náðu vel saman. Eftir póstavinnuna var síðan frjáls tími fram að kvöldmat. Unglingunum var skipt í 3 lið og fengu þau mismunandi heiti. Þemað voru lönd og hétu hóparnir Svíþjóð, Ítalía og Mexíkó. Eftir kvöldmatinn var síðan farið í sund á Suðureyri og mikið var nú gott að slaka á í pottinum eftir góðan dag. Þegar sundinu var lokið tók við smá skemmtidagskrá sem hver hópur setti saman og síðan horfðu þeir sem vildu á bíómynd.

Sunnudagurinn fór í það að pakka saman og koma sér heim. Það var ekki eins auðvelt að fara heim eins og að komast norður. Allt var nefnilega autt á föstudeginum en á sunnudeginum var búið að snjóa á heiðunum og það var frekar hvasst. Ísfirðingarnir fylgdu okkur heim og það dugði ekkert minna en Unimoc (risatrukkur) og aftan í honum var síðan einn vélsleði. Ferðin heim gekk ágætlega fyrir utan nokkra væna skafla á Hrafnseyrarheiði en við þurftum að moka okkur í gegnum einn skafl þar sem var ca. 100 m. langur. Hinum megin við skaflinn beið Smári okkar en fengum við Ísfirðingana til þess að fylgja okkur áleiðis upp Svínadalinn og upp á Dynjandisheiði.

Helgin var góð í alla staði og allir sáttir og ánægðir loksins þegar var komið heim.

Viljum við í unglingadeildinni Vestra þakka félögum okkar á Ísafirði enn og aftur fyrir helgina og þá sérstaklega fyrir fylgdina heim!

Fleiri myndir frá helginni má finna á facebook-síðu unglingadeildarinnar.

Arna Margrét,

umsjónarmaður unglingad. Vestra.

Comments are closed.